Erlent

Vopnahléið kvatt?

Palestínskir skæruliðar hafa hafið árásir á landnemabyggðir gyðinga á Gaza eftir að ísraelskir hermenn drápu þrjá Palestínumenn við Rafah-flóttamannabúðirnar fyrr í dag. Útlit er því fyrir að vopnahléi Palestínumanna og Ísraela, sem komið var á í febrúar, sé lokið. Að sögn talsmanns Ísraelshers nálguðust mennirnir sem drepnir voru, en hinir látnu voru upphaflega aðeins sagðir tveir eins og greint var frá á Vísi, varðstöð hersins við landamæri Ísraels og sinntu engu viðvörunarskotum hermanna. Leiðtogi eins arms innan skæruliðasamtakanna Íslamska jíhad, eða Heilags stríðs, lýsti því í kjölfarið yfir að vopnahlénu væri þar með lokið en aðalleiðtogi samtakanna, Mohammed al-Hini, áréttaði skömmu síðar að samtökin hefðu ekki tekið endanlega afstöðu í málinu. Engin viðbrögð hafa enn borist frá stjórnvöldum í Ísrael og Palestínu vegna ástandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×