Innlent

40 kvenráðherrar til Íslands

Kvenkyns menntamálaráðherrar hvaðanæva að úr heiminum hittast í Reykjavík í lok ágúst til að ræða þau margvíslegu vandamál sem kvenráðherrar um heim allan standa frammi fyrir. Gera má ráð fyrir að um 40 ráðherrar komi til landsins af þessu tilefni. Fundurinn er einn liður í því að minnast 75 ára afmælis Vigdísar Finnbogadóttur fyrrverandi forseta á þessu ári og er haldinn á vegum Alþjóðlegra samtaka kvenna í leiðtogastörfum en Vigdís veitti þeim samtökum formennsku um árabil. Sömuleiðis koma forsætis-, utanríkis- og menntamálaráðuneytið að undirbúningi fundarins. Meðal annarra umræðuefna á þessum fundi verða áhrif menningarhefða á jafnrétti kynjanna og konurnar munu sérstaklega beina sjónum sínum að þeirri staðreynd að allt of hægt gengur að auka áhrif kvenna í stjórnsýslu og stjórnmálum. Enn fremur er stefnt að því að leggja drög að víðtæku samstarfi og samræðum kvenna um allan heim um aukin áhrif kvenna á alþjóðavísu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×