Innlent

Hátt í 200 þingmál bíða afgreiðslu

Þegar aðeins níu fundadagar eru eftir af starfstíma Alþingis fram að sumarleyfi bíða enn hátt í 200 þingmál þess að komast á dagskrá þingsins. Ljóst er að meginþorri þeirra mun ekki ná því að komst í fyrstu umræðu, og er líklegt að reykingafrumvarp Sivjar Friðleifsdóttur verði meðal þeirra sem þau örlög hljóta. Það er stefnt að því að Alþingi fari í sumarfrí efir þrjár vikur. Ef að líkum lætur munu stjórnarfrumvörp njóta forgangs á þeim stutta tíma sem eftir er en mál einstakra þingmanna verði látin mæta afgangi. Það hafa löngum verið talin döpur örlög þingmáls að sofna í nefnd. Nú er svo komið að þingmenn mega þakka fyrir ef mál þeirra ná yfir höfuð að komast í nefnd. Mikill fjöldi þingmálanna nær ekki einu sinni að komast á dagskrá og til fyrstu umræðu, þau birtast bara sem þingskjal sem aldrei er mælt fyrir. Þannig bíða nú 29 lagafrumvörp þingmanna eftir því að komast á dagskrá. Þingsályktunartillögur í biðröðinni eru 66 talsins. Þá bíða 88 fyrirspurnir eftir því að ráðherra svari. Frumvarp Sivjar Friðleifsdóttur um reykingabann á veitingahúsum er meðal þeirra sem ekki hefur enn komist á dagskrá og ólíklegt úr þessu að Siv fái tækifæri til að mæla fyrir því. En jafnvel þótt þingmenn komi málum í gegnum fyrstu umræðu þá eru mestar líkur á að lengra komist þau ekki. Af lagafrumvörpum þingmanna sem komist hafa á dagskrá í vetur eru 55 nú stödd í nefnd. Aðeins eitt þingmannafrumvarp hefur náð því að komast alla leið og verða að lögum, frumvarp sem Örlygur Hnefill Jónsson varaþingmaður flutti ásamt þingmönnum úr öllum flokkum um að milda sektir fyrir minniháttar fiskveiðibrot. 58 þingsályktunartillögur þingmanna eru í nefnd og bíða þess flestar að sofna þar en engin þeirra hefur ennþá hlotið samþykki. Það er því vart að undra að þingmenn leggi mestu upp úr fyrirspurnum því þeim hefur þó tekist að fá 331 þeirra svarað það sem af er vetri, 190 munnlega og 141 skriflega. Eitt af þeim þingmannamálum sem spennandi verður að fylgjast með á lokadögum þingsins er frumvarp Jóhönnu Sigurðardóttur um lækkun áfengiskaupaaldurs niður í 18 ár en það var komið á fleygiferð í fyrra þegar átökin um fjölmiðlafrumvarpið umturnuðu öllu þinghaldi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×