Erlent

Leyniskýrsla lak í Bretlandi

Trúverðugleiki Tonys Blairs beið enn á ný hnekki þegar leyniskýrsla um Íraksstríðið var birt í fjölmiðlum í dag. Pólitískir keppinautar stukku á málið en Blair segist ekkert rangt hafa gert. Í dag birtust kaflar úr lögfræðiáliti dómsmálaráðherrans Goldsmiths lávarðar en í byrjun mars árið 2003 lauk hann gerð lærðrar skýrslu sem skilja má sem svo að hann hafi efast um lögmæti stríðsins í Íraks og hvort að ályktanir öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna heimiluðu það. Tíu dögum síðar sendi hann frá sér nýja skýrslu þar sem engan efasemdatón var að finna og á Bretlandi er það túlkað sem svo að hann hafi verið beittur pólitískum þrýstingi. Hann neitar því en málið er engu að síður vandræðalegt fyrir Tony Blair, og það aðeins viku fyrir kosningar. Fjölmiðlar á Bretlandi segja sumir hverjir ljóst að hann hafi logið, aðrir að skýrslan bendi til þess að þing og ríkisstjórn hafi verið blekkt. Blair segist aldrei hafa logið og ætla ekki að fara að taka upp á því, hvorki í Írakssmálinu né öðru, og segir fjórar rannsóknir styðja það. Stjórnarandstaðan stökk á málið. Michael Howard, leiðtogi íhaldsmanna, sagði Íraksmálið í rauninni snúast um eina mjög einfalda spurningu: Ef ekki sé hægt að treysta Blair til að taka ákvörðun um að þjóðin fari í stríð, mikilvægustu ákvörðun sem forsætisráðherra geti tekið, hvernig sé þá hægt að treysta honum í nokkru máli nokkurn tímann aftur?  Charles Kennedy, leiðtogi frjálslyndra demókrata, sagði ekki nóg með að Blair hafi tekið ranga pólitíska ákvörðun, heldur réttlætti hann hana á villandi hátt. George Galloway, áður þingmaður Verkamannaflokksins en núna óháður, sagðist telja að Blair sjálfur verði aðaldeilumálið síðustu vikuna fyrir kosningar. „Ef ég væri frambjóðandi Verkamannaflokksins, eins og ég hef oft verið, myndi ég óska þess að jörðin opnaðist og gleypti hann í dag,“ sagði Galloway. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×