Innlent

Á móti frumvarpi um ný vatnalög

Umhverfisstofnun leggst gegn frumvarpi Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um ný vatnalög. Iðnaðarnefnd afgreiddi frumvarpið úr nefnd fyrir helgina og er önnur umræða um það fyrirhuguð á Alþingi. Markmið frumvarpsins er að setja skýrari lagaákvæði um eignarhald á vatni, skynsamlega stjórnun vatnamála og hagkvæmari og sjálfbæra nýtingu vatns og er því ætlað að leysa af hólmi vatnalög frá árinu 1923. Umhverfisstofnun telur að frumvarp iðnaðarráðherra til vatnalaga sé háð verulegum annmörkum og bendir á að það virðist að grunni til vera ætlað að líta á orkunýtingu vatns, sem sé mjög afmarkaður þáttur þess málaflokks er lúti að vatni, vatnsbúskap, nýtingu og verndun vatns. Umhverfisstofnun telur aftur á móti að frumvarpið taki nánast ekkert til umhverfismála eða vatnafars og vatnsbúskapar í víðasta skilningi, þar sem lögð sé áhersla á umhverfið og verndun þess. Þá er það mat stofnunarinnar að lagasetningin stangist á við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar Íslands og leiði til réttaróvissu á fjölmörgum sviðum umhverfismála, almannaréttar og vatnsnýtingar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×