Erlent

Veltur framtíð Blairs á ESB?

Evrópumálin verða líklega stærsta verkefni Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, á þriðja kjörtímabili hans. Takist honum ekki að fá bresku þjóðina til að samþykkja nýja stjórnarskrá Evrópusambandsins kann það að binda enda á pólitískan feril hans. Þótt Blair hafi sjálfur sagt að málefni Afríku og miðausturlanda séu meðal þeirra utanríkismála sem hann telji mikilvægust á komandi kjörtímabili telja stjórnmálaskýrendur að Evrópumálin og málefni Evrópusambandsins verði þau mál sem hann verði að setja efst á forgangslistann. Evrópumálin komu ekki mikið við sögu í nýafstaðinni kosningabaráttu í Bretlandi en talið er að það verði stærsta verkefni Blairs í upphafi kjörtímabilsins að fá bresku þjóðina til þess að samþykkja nýja stjórnarskrá ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu, líklega á næsta ári. En það verður á brattan að sækja hjá Blair því kannanir sýna að mikill meirihluti er andvígur stjórnarskránni. Stjórnmálaskýrendur segja að takist honum ekki að sannfæra þjóðina í þessum efnum, kunni það að binda enda á pólitískan feril hans. Robin Cook, fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, telur að það hefði ekki aðeins slæm áhrif á stöðu Bretlands innan Evrópu, ef Blair mistekst að tryggja samþykki stjórnarskrárinnar, heldur hefði það einnig gríðarlega slæm áhrif á stjórn Verkamannaflokksins. Örlög Blairs kunna aftur á móti að liggja í höndum Frakka sem greiða atkvæði um stjórnarskrá Evrópusambandsins þann 29. maí næstkomandi. Hafni franska þjóðin stjórnarskránni er líklegt að þau áform ESB verði endanlega úr sögunni, og þar með yrði Blair laus allra mála. Samþykki Frakkar hins vegar stjórnarskrána verður Blair, sem verður í forsæti í Evrópusambandinu frá júlí næstkomandi, að sannfæra bresku þjóðina um að gera slíkt hið sama.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×