Erlent

Geislavirkur leki í Sellafield

Í ljós hefur komið að um 20 tonn af stórhættulegri blöndu geislavirkra efna hafa lekið úr hriplekum pípum í Sellafield, kjarnorkuendurvinnslustöðinni í Bretlandi. Það var lán í óláni að þessi geislavirka blanda úrans og plútons lak inn í lokað stálherbergi í Thorp-endurvinnslustöðinni í Sellafield en þessari verksmiðju hefur í kjölfarið verið lokað. Yfirvöld fullyrða að almenningi sé engin hætta búin. Ljóst er að það tekur marga mánuði að hreinsa upp lekann og smíða þarf sérstök vélmenni til þess arna þar sem ekki er óhætt að senda menn inn í þetta geislavirka umhverfi. Sigríður Anna Þórðardóttir, umhverfisráðherra hefur sett sig í samband bæði við Sellafield-stöðina sjálfa til að fá staðfestingu á því að geislavirk efni hafi ekki lekið út í umhverfið og jafnframt hefur verið haft samband við bresk stjórnvöld til að krefjast frekari upplýsinga um málið enda vekur þetta atvik ótta um að öryggismálum Sellafield-stöðvarinnar almennt ábótavant. Íslensk stjórnvöld hafa ítrekað lýst áhyggjum sínum af endurvinnslustöðinni í Sellafield og krefjast þess að öll losun geislavirkra efna út í umhverfið verði stöðvuð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×