Innlent

Tilraun til afvegaleiðingar

Fjármálaráðherra hafnar því alfarið að ríkissjóður nýti sér upptöku olíugjalds til tekjuöflunar. Hann segir slíkan málflutning vera tilraun til að villa mönnum sýn og afvegaleiða.  Taka á upp olíugjald í stað þungaskatts í sumar og hélt Kristján L. Möller, þingmaður Samfylkingarinnar, því fram að í henni fælist skattahækkun. Milljarður, sem notendur greiða, fari aukalega beint inn í ríkissjóð. Þetta segir Geir H. Haarde fjármálaráðherra alrangt. Virðisaukaskattur muni jú leggjast á olíugjaldið en gjaldið lækki sem því nemur. Samkvæmt upphaflega frumvarpinu voru áætlaðar tekjur af olíugjaldi um 470 milljónum krónum lægri en tekjur af þungaskatti, en þegar vaskinum hefur verið bætt ofan á olíugjaldið kemur ríkissjóður út á sléttu. Vegagerðin varð hins vegar fyrir tekjutapi við þessa niðurstöðu, enda er vaskurinn ekki eyrnamerktur til vegamála eins og olíugjaldið og sérstakt bensíngjald. Vörugjald af almennu bensíni mun þó einnig lækka sem samsvarar tekjum af vaskinum. Sérstaka bensíngjaldið hækkar en það er markaður tekjustofn til vegagerðar. Þannig gengur jafnan upp fyrir alla, segir ráðherra: ríkið, vegagerð og skattborgara. Aðspurður hvort um misskilnig sé að ræða segist Geir telja það, eða eitthvað ennþá verra, t.a.m. tilraun til að villa mönnum sýn og afvegaleiða þá í þessari umræðu. „Það er auðvelt í svona flóknu máli,“ segir Geir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×