Innlent

Mál hunds til úrskurðanefndar

 Umhverfisráð vísaði endurupptöku málsins frá á fundi sínum í gær, en lögmaðurinn hafði farið fram á að málið yrði tekið þar upp öðru sinni. Mál Taraks hefur gert víðreist í borgarkerfinu. Það fór upphaflega fyrir Umhverfis- og heilbrigðisnefnd, sem úrskurðaði að hundurinn skyldi aflífaður. Ástæðan var sú að í ágúst á síðasta ári hafði hann glefsað í stúlkubarn og faðir barnsins kært til lögreglu. Úrskurðinum var áfrýjað til umhverfisráðs. Auk lögfræðiaðstoðar fór hundurinn í víðtækt skapgerðarmat og heilsufarsskoðun hjá sérfræðingum. Umhverfisráð úrskurðaði að hundurinn, sem er roskinn Collie-hundur, skyldi fá að lifa en yrði gerður útlægur úr Reykjavík, þar sem eigendur hans búa. Lögmaður hundsins reyndi að leita sátta í málinu, meðal annars með endurupptöku þess hjá Umhverfisráði. Því var hafnað í gær, sem fyrr sagði. "Þessi niðurstaða er fáránleg," sagði lögmaðurinn. "Ef menn myndu líta á málið af sanngirni, þá ætti hundurinn, sem á ekki nema 2 - 3 ár ólifuð, að fá að vera hjá fjölskyldu sinni, sem býr við bestu aðstæður. Það er mannvonska og skilningsleysi að ætla að rífa hann í burtu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×