Innlent

Varað við símasölu netfyrirtækis

Tölvu- og netþjónustan Snerpa varar fólk við símasölu frá erlendu netfyrirtæki. Í tilkynningu frá Snerpu segir að fyrirtækið hafi síðustu daga fengið ábendingar um símasöluherferð netfyrirtækisins þar sem hringjandinn segist vera að aðstoða við skráningu á nafni viðkomandi í lénaskrá. Snerpa segir að á Netinu sé ekkert frá fyrirtækinu að finna annað en eina vefsíðu þar sem það virðist vera að gefa sig út sem bandaríska ríkisstofnun, Federal bureau of domain names, en símtölin komi hins vegar frá London. Segir í tilkynningu Snerpu að sölumenn fyrirtækisins séu mjög ágengir og fullyrði meðal annars að ef ekkert verði aðhafst verði nafni viðkomandi stolið og að aðrir geti pantað sér vöru og þjónustu í hans/hennar nafni. Fólki er eindregið ráðlagt að hunsa algerlega þetta fyrirtæki og eins og ávallt beri að viðhafa varúð við viðskipti við þá sem gera óumbeðið tilboð um þjónustu sem er óskilgreind og alls ekki að gefa upp greiðsluupplýsingar eins og kortanúmer eða annað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×