Erlent

Vill stofna OPEC-samtök fiskveiða

Færeyingurinn Högni Hoydal lagði til á fiskveiðiráðstefnu vestnorræna ráðsins, sem haldin er í Þórshöfn í Færeyjum, að stofnuð yrðu í samstarfi við Noreg ný fiskveiðisamtök, nokkurs konar OPEC-samtök fiskveiðanna, eins og hann orðaði það með skírskotun til samtaka olíuframleiðsluríkja. Þetta kemur fram á vef Norðurlandaráðs. Hoydal telur slík fiskveiðisamtök styrkja samningsstöðu Færeyinga, meðal annars gagnvart Evrópusambandinu. Ekkert vestnorrænu ríkjanna er aðili að ESB og þau hafa ekki sameiginlega sjávarútvegsstefnu gagnvart sambandinu. Fiskveiðitengdar ákvarðanir sem teknar eru innan Evrópusambandsins hafa engu að síður mikil áhrif á ríkin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×