Innlent

86% Íslendinga nota Netið daglega

Hlutfall heimila með nettengingu er hvergi hærra í Evrópu en á Íslandi. 88 prósent Íslendinga nota tölvu og 86 prósent nota Netið nær daglega. Þetta kemur fram í nýrri könnun Hagstofunnar á tölvu- og netnotkun landsmanna. Sífellt fleiri Íslendingar nota Netið til að kaupa vörur og þjónustu, einkum ýmiss konar farmiða, gistingu eða annað ferðatengt. Alls hafa 28 prósent Íslendinga pantað eitthvað eða keypt um Netið. 84 prósent heimila eru nettengd og nota þrjú af hverjum fjórum þeirra háhraðatengingu. Í Evrópu var lægst hlutfall heimila með tengingu við Netið í Tyrklandi, 7 prósent, en það er miðað við könnun frá í fyrra. Norðurlandabúar nota Netið mun meira en aðrir íbúar Evrópu en um helmingur íbúa landa Evrópusambandsins notaði Netið í fyrra. Rétt tæplega helmingur þeirra íslensku heimila sem ekki hafa nettengingu segir Netið óæskilegt, um fimmtungur hefur aðgang að Netinu annars staðar og svipað hlutfall sagði Netið vera of flókið fyrirbæri. Eitt af hverjum tíu þessara ónettengdu heimila setti kostnaðinn við tengingu eða tækjabúnað fyrir sig og tvö prósent töldu Netið ekki öruggt. Lítill sem enginn munur mælist milli kynja þegar kemur að tölvu- og netnotkun. Þannig nota 88 prósent karla og 87 prósent kvenna tölvu og 87 prósent karla og 85 prósent kvenna nota Netið. Úrtakið í könnun Hagstofunnar var 2000 einstaklingar á aldrinum 16 til 74 ára og var svörun 81 prósent.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×