Innlent

Öll heimili tengd árið 2011

Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur hafa skrifað undir samning um að ljósleiðaravæðingu allra heimila borgarinnar ljúki árið 2011. Sambærilegir samningar hafa verið gerðir við Akraneskaupstað og Seltjarnarnes. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri lýsti sérstakri ánægju með samninginn og sagði hann framfaraskref. "Á ári verða tengd milli sjö og tíu þúsund heimili, en í Reykjavík eru þau um 45 þúsund talsins," sagði hún, en þegar hafa verið tengd tæplega 2.000 heimili. Kostnaður vegna verkefnisins er áætlaður tæplega 6,8 milljarðar króna. "Orkuveitan sjálf mun ekki veita þjónustu um ljósleiðaranetið heldur er hún að leggja opið net sem aðrir geti tengt sig inn á," sagði borgarstjóri. Gert er ráð fyrir að fjárfestingin skili sér á rúmum áratug, en minnsti líftími kerfisins er sagður ríflega tvöfalt lengri, eða 25 ár.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×