Sport

Mourinho samur við sig

Jose Mourinho er samur við sig þegar kemur að því að stríða kollegum sínum á Englandi í toppbáráttunni í úrvalsdeildinni og nú er hann byrjaður að senda þeim pillur í fjölmiðlum fyrir næstu leiktíð, þar sem hann segir Chelsea verða sterkara en nokkru sinni fyrr. "Liðin í deildinni vita hversu sterkir við erum og því verða þau að styrkja sig. Ef þau gera það ekki, eiga þau ekki möguleika. Við verðum að vinna alla okkar leiki á heimavelli og gera Stamford Bridge að óvinnandi vígi. Það verður vissulega erfitt að vinna titilinn annað árið í röð, en ég vil ekki að mín verði minnst fyrir að stýra liðinu til fyrsta titilsins í hálfa öld og setjast svo niður og hvíla mig. Ég vil vinna allt sem í boði er," sagði Mourinho, sem ekki gat stillt sig um að skjóta aðeins á Alex Ferguson og Manchester United. "Það vakti athygli mína að leikmenn liðsins hlupu hring um Old Trafford og voru hylltir af áhorfendum sínum eftir að hafa tapað fyrir okkur í titilslagnum. Áhorfendur hér á Englandi eru ótrúlega traustir, því ef viðlíka hefði gerst í Portugal, hefðu leikmennirnir verið grýttir með flöskum."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×