Innlent

Seðlabankinn óháður stjórnmálum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar og bankaráðsmaður í Seðalbankanum, segir að stöðu Seðlabankastjóra eigi ekki að úthluta pólitískt. Hún var einn þriggja þingmanna Samfylkingarinnar sem lögðu fram frumvarp á Alþingi 2003 þar sem sett yrði í lög að auglýsa skyldi stöðu Seðlabankastjóra. Einnig skyldi þess krafist að bankastjórar skuli hafa reynslu og víðtæka þekkingu á peningamálum og öðrum efnahagsmálum. "Þeir sem veljast til starfs Seðlabankastjóra eiga að hafa reynslu og þekkingu og helst menntun á því sviði," segir Ingibjörg Sólrún. "Það er ekki í takt við breytta tíma að standa svona að málum eins og gert er. Seðalbanki Íslands er sjálfstæð stofnun sem fer með stjórn efhahagsmála en ekki framlenging á ráðuneyti efnahagsmála.," segir hún. Sigurður Snævarr hagfræðingur segir hagfræðinga hafa misjafnar skoðanir á ráðningum í Seðlabankann. "Mín skoðun er sú að stjórn Seðlabankans er ekki hagfræðilegt úrlausnarefni heldur ákveðin list. Bakgrunnur Davíðs Oddssonar og reynsla hans af stjórnmálum mun nýtast honum mjög vel og bankanum," segir Sigurður. "Það skiptir öllu máli að bankinn sé sjálfstæður gagnvart stjórnmálamönnum og stjórnmálum. Það skiptir líka veruleg máli að Seðlabankastjóri hafi nef fyrir tíma svo hann skynji hvenær rétti tíminn er til að grípa til aðgerða. Það er list," segir Sigurður. Þorvaldur Gylfason hagfræðingur segir að höfuðmarkmið breytinga á lögum um Seðlabankann hafi verið að auka sjálfstæði seðlabankanna innan stjórnkerfisins og brýnt þyki að stjórnmálamönnum sé haldið í fjarlægð frá seðlabönkum til að draga úr hættunni á spillingu. "Þeir eru ekki aðeins taldir óhæfir, heldur beinlínis vanhæfir samkvæmt eðli málsins. Ráðning Davíðs Oddssonar í stöðu seðlabankastjóra gengur í berhögg við þessi sjónarmið og gengur einnig í berhögg við anda nýju seðlabankalaganna, sem ríkisstjórn hans fékk samþykkt á Alþingi 2001," segir Þorvaldur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×