Sport

Toppbaráttan í algleymingi í dag

Toppbaráttan í fyrstu deild karla verður í algleymingi í dag því Víkingur og KA eru jöfn í öðru og þriðja sæti deildarinnar með 31 stig en Breiðablik er búið að vinna deildina með 40 stig. KA mætir meisturum Breiðabliks í dag á Kópavogsvelli en þá fá Blikar afhentan titilinn. Í Hafnarfirðinum mætast Haukar og Víkingar. KA-menn hafa verið sjóðheitir upp á síðkastið eftir að Guðmundur Valur Sigurðsson tók við stjórn liðsins af Þorvaldi Örlygssyni, á meðan Vikingar hafa verið að gefa eftir í toppbaráttunni, fengið aðeins þrjú stig í síðustu þremur leikjum. Víkingar eru með hagstæðara markahlutfall og vinni bæði liðin sína leiki gæti það riðið baggamuninn. Botnbaráttan er ekki síður spennandi en sex lið geta enn fallið. Botnliðin Völsungur og KS mætast á Húsavík, HK fer til Akureyrar og mætir Þór og Fjölnismenn taka á móti Ólafsvíkur Víkingum í Grafarvogi. Leikir dagsins hefjast allir klukkan 14 að undanskildum leik Völsungs og KS sem hefst klukkan 16. Það lið sem tapar leiknum á Húsavík er nánast fallið í 2. deild.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×