Innlent

Lík af konu fundið

Lík af rúmlega fimmtugri konu sem saknað var eftir að lítill skemmtibátur fórst á Viðeyjarsundi í nótt er fundið. Rúmlega þrítugs karlmanns er enn saknað og stendur leit yfir. Þriggja var bjargað af kili bátsins sem maraði í hálfu kafi. Það voru lögreglumenn á bát sem fundu fólkið við Skarfasker utan við Laugarnestanga. Neyðarkall barst til Neyðarlínunnar frá bátnum rétt fyrir klukkan tvö í nótt en þá var ekki vitað nákvæmlega hvar báturinn var staddur. Ekki liggur fyrir hvað olli slysinu en báturinn virðist hafa strandað á Skarfaskeri og sokkið í kjölfarið. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hóf leit um klukkan hálf þrjú í nótt og stóð leit þeirra til klukkan sex í morgun. Slysavarnarfélagið Landsbjörg, slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, og lögreglan hafa einnig tekið þátt í leitinni með bátum, fjölda kafara og leitarmönnum í landi. Hátt í tuttugu kafarar voru við leit þegar mest var og eru enn um tíu kafarar að störfum. Frá slysavarnarfélaginu Landsbjörgu eru sextíu björgunarsveitarmenn við leit. Þeir eru á tveimur björgunarskipum, þremur slöngubátum og fimm léttabátum auk þess sem fjöldi manna gengur fjörur frá Geldinganesi að Gróttu og í öllum eyjum á sundinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×