Innlent

Báturinn ný­kominn til landsins

Báturinn sem fórst á Viðeyjarsundi í nótt hét Harpa og var nýkominn til landsins. Frekari upplýsingar um hann liggja því ekki fyrir hjá tilkynningarskyldunni. Um miðnætti var skyggni lélegt á slysstað, vindur um níu metrar á sekúndu og súld. 

Magnús Jóhannsson hjá svæðisstjórn Landsbjargar segir að tilkynning um slysið hafi borist Neyðarlínunni rétt fyrir klukkan tvö. Skömmu síðar hafi bátar frá björgunarsveitum og lögreglu verið komnir á slysstað og björguðu þremur af kili bátsins. Síðan þá hefur leit og björgun staðið yfir en karlmanns er saknað. Fyrr í morgun fannst lík rúmlega fimnmtugrar konu. Enn sem komið er er ekki vitað nákvæmlega um orsök slyssins að sögn Magnúsar en báturinn virðist hafa strandað á Skarfaskeri og sokkið í kjölfarið. 

Nú er fjaran leituð allt frá Geldingarnesi upp að Eiðsvík á Kjalarnesi og bátar sigla sundin, auk þess sem leitað er í eyjunum á sundunum. Áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar hóf leit um klukkan hálf þrjú í nótt og leitaði til klukkan sex. Þyrlan hóf leit aftur á milli klukkan níu og tíu og er enn að.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×