Innlent

Neyðar­kall tíu ára drengs

Þrennt bjargaðist, hjón og tíu ára sonur þeirra, þegar skemmtibátur steytti á Skarfaskeri við Viðey og sökk um klukkan tvö í fyrrinótt. Rúmlega fimmtug kona lést og rúmlega þrítugs karlmanns er enn saknað. Talið er að hann hafi reynt að kafa undir bátinn eftir konunni sem lést. 

Hjónunum og syni þeirra tókst að klifra upp á kjöl bátsins eftir slysið. Það varð þeim til lífs að drengurinn gat hringt úr farsíma sínum í Neyðarlínuna og hófst þá leit að fólkinu. Lögregluþjónar á gúmmíbát fundu bátinn um tuttugu mínútur yfir þrjú og björguðu þremenningunum um borð. Þá var fólkið búið að vera í sjónum í rúma klukkustund. 

Hjónin liggja alvarlega slösuð á sjúkrahúsi og gengust undir aðgerð í gær, drengurinn er hins vegar lítið meiddur. Sjötíu mínútum eftir að fólkinu var bjargað fannst lík konunnar sem fórst. Bogi Sigvaldason lögreglumaður var einn þeirra sem fundu þremenningana. Hann segir að ekki hafi mátt tæpara standa, báturinn hafi sokkið tíu til tuttugu mínútum eftir að fólkinu var bjargað.

Bogi Sigvaldason lögreglumaðurMYND/Stöð 2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×