Erlent

Stjórnarmyndunarviðræður í Noregi

Kjell Magne Bondevik fráfarandi forsætisráðherra hefur tilkynnt Haraldi Noregskonungi að hann ætli að segja af sér eftir að vinstrabandalag Verkamannaflokksins, Sósíalíska vinstriflokksins og Miðflokksins náðu meirihluta á norska Stórþinginu í þingkosningunum á mánudag. Jens Stoltenberg ætlar að ræða myndun meirihlutastjórnar við samstarfsflokkana þegar í dag. Þetta er í fyrsta skipti í tuttugu ár sem mynduð er meirihlutastjórn í Noregi en rík hefð er fyrir minnihlutastjórnum sem stýrt hafa með stuðningi eða hlutleysi flokka utan ríkisstjórna. Meðal þess sem samstarfsflokkarnir ræða er hvort og þá hvernig verja skuli fé úr digrum olíusjóði Norðmanna til verlferðarmála. Þeir þurfa einnig að ræða áherslur í orkumálum, en í kosningabaráttunni var meðal annars tekist á um áform um stóraukna raforkuframleiðslu með jarðgasi. Búast má við einhverjum breytingum á utanríkisstefnu Norðmanna í kjölfar stjórnarskiptanna. Norskir fjölmiðlar hafa meðal annars nefnt mögulega heimkvaðningu norskra hermanna frá Írak fyrir áramótin en jafnframt áform um að efla friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna í Súdan. Þegar hefur verið rætt um skiptingu ráðherraembætta. Verkamannaflokkurinn bætti við sig átján þingsætum í kosningunum á mánudag og hefur nú 61 sæti af 169. Norskir fjölmiðlar telja flokkinn það voldugan innan vinstrabandalagsins, að tvö helstu ráðherraembættinn fyrir utan forsætisráðherrastólinn geti fallið honum í skaut. Björn Tore Godal og Jan Egeland aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna eru báðir taldir koma til greina í embætti utanríkisráðherra. Jens Stoltenberg hefur þó ekki tjáð sig um skiptingu embættanna að öðru leyti en því að segja að kjósendur hafi ákveðið styrkleikahlutföllin. Tap stjórnarflokkanna var afar mikið. Hægriflokkurinn tapaði um þriðjungi þingsæta en Kristilegi þjóðarflokkurinn undir stjórn Bondeviks tapaði helmingi þingsæta sinna. Hins vegar náði frjálslyndi miðjuflokkurinn Venstre að fjölga þingmönnum sínum úr tveimur í tíu og Framfaraflokkurinn bætti við sig fjórtán þingsætum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×