Sport

Mikil meiðsli hjá Birmingham

Steve Bruce, stjóri Birmingham í ensku úrvalsdeildinni, á í stökustu erfiðleikum með að ná í fullskipað lið fyrir leikinn gegn Arsenal á sunnudaginn vegna meiðsla sem hrjá leikmenn liðsins. Bruce þarf væntanlega að kalla nokkra unglingaliðsmenn inn í hópinn fyrir leikinn því ótrúlegur fjöldi leikmanna er frá vegna meiðsla eða leikbanna. Mario Melchiot og Olivier Tebily eru nýjustu meiðslakálfarnir í liðinu, en auk þeirra eru þeir David Dunn, Muzzy Izzet, Jiri Jarosik, Mehdi Nafti og Martin Taylor meiddir og Nicky Butt og Neil Kilkenny eru í leikbanni. Birmingham hefur enn ekki tapað á útivelli í ensku úrvalsdeildinni og Steve Bruce gat ekki annað en gert grín að meiðslavanda liðsins á blaðamannafundi í dag. "Er einhver hérna til í að koma og spila með okkur um helgina? Við eigum auðveldan leik við Arsenal. Ég myndi líklega vera með sjálfur, en ég er með lélega hásin," sagði Bruce hlæjandi, en bætti svo við á alvarlegri nótum að þetta væri versti meiðslavandi sem hann hefði lent í á ferli sínum sem þjálfari, því hann hefði aðeins 13 leikfæra menn á skýrslu fyrir Arsenal-leikinn á sunnudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×