Innlent

Bort á lyfjalögum líðst ekki

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir þingmaður Samfylkingarinnar spurði Jón Kristjánsson heilbrigðismálaráðherra um lyfjaskort í upphafi þingfundar í gær. Hún sagði að fréttir hefðu borist af skorti á krabbameins-, sykursýkis- og skjaldkirtilslyfjum. Lyfjaheildsalar væru hættir að flytja inn sum lífsnauðsynleg lyf og engin kæmu í staðinn. Hún taldi brýnt að bregðast fljótt við og spurði heilbrigðisráðherra hvernig hann hygðist gera það. Jón Kristjánsson heilbrigðisráðherra kvaðst líta málið mjög alvarlegum augum væri það rétt hjá landlækni að menn væru að fara á svig við lyfjalög. „Það verður ekki þolað. Við höfum haft áhyggjur af þessu í ráðuneytinu um hríð sem og landlæknisembættið og lyfjastofofnun." Jón sagði að lyfjastofnun hefði þegar rætt við innflytjendur um leiðir til þess að koma í veg fyrir að lyf séu tekin af markaði og leiðir til að koma þeim aftur á markað. Hann sagði að innan skamms yrði haldinn fundur lyfjastofnunar, landlæknis og ráðuneytismanna með fulltrúum Félags íslenskra stórkaupmanna og lyfjaheildsala þar sem meðal annars yrðu ræddar verklagsreglur og hvernig skyldi bregðast við þegar skortur yrði á nauðsynlegum lyfjum. „Fyrirmæli mín eru skýr. Það verður að tryggja það að almannaheilbrigði og hagsmunir almennings verði í þessu sambandi tryggðir." >



Fleiri fréttir

Sjá meira


×