Innlent

Útilokaði nánast Samfylkinguna

Davíð Oddsson fráfarandi formaður Sjálfstæðisflokksins gerði það eitt af sínum síðustu verkum sem formaður, í setningaræðu sinni á landsfundinum í gær, að nánast útiloka stjórnarmyndun með Samfylkingunni, þegar þar að kemur. Davíð rifjaði upp að í stjórnarsáttmálanum með Alþýðuflokki árið 1978 hafi verið stefnt að löggjöf gegn einokun og hringamyndun. Hann hafi þá og hafi enn trú á gildi heilbrigðrar samkeppni fyrir fólkið í landinu en sé andvígur því að hún snúist upp í andhverfu sína. Davíð sagði enn fremur að hann hefði hrósað Alþýðuflokknum árið 1978 fyrir rétta afstöðu í málinu þá og því væri enn dapurlegra að ekki aðeins formaður Samfylkingarinnar heldur einnig sumir þingmenn hennar, eins og ömurlegt uppistand í þinginu síðastliðinn þriðjudag hefði sýnt, virtust naumast líta lengur á Samfylkinguna sem flokk en fremur sem tiltölulega léttvægt dótturfélag auðhrings. Sjálfstæðismenn gætu því ekki vænst stuðnings úr þeirri átt. Aðspurð um ummæli Davíðs Oddssonar segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, að hún geri ekki mikið með þau. Þau segi meira um Davíð en þá sem hann hafi fjallað um og hún kippi sér ekki upp við sendingar úr þessari átt. Það veki auðvitað athygli hvað honum verði tíðrætt um Samfylkinguna og hún geti ekki skilið það öðruvísi en svo að hann telji að það sé skeinuhættasti keppinauturinn um fylgi fólks. Aðspurð hvort hún telji þau orð Davíðs að hann geti ekki vænst stuðnings frá Samfylkingunni að hann telji loku fyrir það skotið að myndi ríkisstjórn með flokknum segir Ingibjörg að hún viti ekki hvað Davíð sé að hugsa. Af samhengi orðanna hafi hún lesið að Davíð teldi að ekki væri að vænta stuðnings frá Samfylkingunni við sértæka löggjöf gegn hringamyndun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×