Innlent

Lokað prófkjör

MYND/Róbert
Ákveðið hefur verið að hafa lokað prófkjör hjá Samfylkingunni í Hafnarfirði við uppstillingu á lista flokksins fyrir næstu sveitastjórnarkosningar. Tillaga kom fram á félagsfundi um að hafa opið prófkjör en aðeins um fjórðungur félagsmanna var hlynntur því. Prófkjörið verður haldið 5. nóvember næstkomandi. Félagsfundur tók ákvörðun í kvöld um að fara þessa leið við uppstillingu á lista flokksins til bæjarstjórnarkosninga í Hafnarfirði. Að sögn Guðna Kjartanssonar, formanns Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, kom fram tillaga um opið prófkjör en hún náði ekki fram að ganga. Tillaga stjórnarinnar um lokað prófkjör var hins vegar samþykkt. Utankjörfundir verða síðustu þrjá dagana fyrir prófkjörið og opið verður fyrir skráningar í flokkinn alveg fram á kjördag. Yfir tvöþúsund félagsmenn eru í Samfylkingunni í Hafnarfirði. Guðni telur að með því að leyfa fólki að skrá sig í flokkinn fram á kjördag séu góðar líkur á að fjöldi félagsmanna verði kominn yfir þrjú þúsund eftir prófkjörið. Guðni sagði það ekki hafa komið til að vera með uppröðun á listann en fyrir sveitastjórnarkosningarnar 2002 notaði flokkurinn svokallaða skoðanakönnun.  Bæjarstjórnarkosningar verða í Hafnarfirði í maí á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×