Innlent

Vinna saman gegn fuglaflensu

Norðurlöndin fimm ætla að vinna saman að vörnum gegn fuglaflensu. Markmið þessarar samvinnu er bæði að koma í veg fyrir faraldur og bregðast við ef hann brýst út.

Forsætisráðherrar norrænu landanna boðuðu til blaðamannafundar í morgun þar sem farið var yfir þau mál sem ráðherrarnir hafa rætt á fundum sínum í tengslum við þing Norðurlandaráðs sem hófst hér á landi í dag. Þar greindu þeir frá því að heilbrigðisráðherrum landanna hefði verið falið að finna hvar megi styrkja samvinnuna með það fyrir augum að koma í veg fyrir að fuglaflensa verði að faraldri á Norðurlöndum og hvernig brugðist verði við ef slíkt gerist.

Svalbarðadeilan var einnig rædd á blaðamannafundinum, en eins og kunnugt er hafa nokkrar þjóðir, þar á meðal Íslendingar, Rússar og Færeyingar, mótmælt því að Norðmenn taki sér einhliða yfirráðarétt yfir hafsvæðum við Svalbarða sem ekki er norskt land. Þar lét Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra í ljós vilja til sátta.

Danir hafa verið í forsæti í norrænu ráðherranefninni á þessu ári en Norðmenn taka við af þeim um áramótin. Það er kannski kaldhæðni örlaganna en næsti fundur forsætisráðherranna verður á Svalbarða í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×