Innlent

Lofar lögum um starfsmannaleigur

Árni Magnússon félagsmálaráðherra
Árni Magnússon félagsmálaráðherra MYND/Vísir

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, vill strax láta setja lög um starfsmannaleigur og undrast hægagang ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Félagsmálaráðherra lofar lögum um starfsmannalegur fyrir jólafrí. Utandagskrárumræður fóru fram á Alþingi í morgun um starfsemi starfsmannaleiga, að beiðni Össurar. Félagsmálaráðherra sagði í umræðunum að nefnd um þessi mál muni skila niðurstöðum sínum á allra næstu dögum. Frumvarp til laga verði lagt fram á Alþingi fyrir jól.

Félagsmálaráðherra áréttaði að það væri skýrt í lögum að starfsmannaleigur ættu líkt og aðrir atvinnurekendur að fara að íslenskum lögum og reglum. Ráðherrann hrósaði verkalýðshreyfingunni fyrir sinn þátt í þessum málum. Þá minnti hann á að verktakar sem nýta sér þjónustu starfsmannaleiga bæru einnig ábyrgð.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, virtist þreyttur á seinagangi stjórnvalda og sagði tvö ár nú vera liðin frá því að málið kom fyrst upp; tvö ár án aðgerða. Hann minnti á lagafrumvarp sem Atli Gíslason, varaþingmaður VG, lagði fram í fyrra þar sem tekið er á málefnum starfsmannaleigna. Ögmundur sagði það frumvarp duga til og taka af öll tvímæli um kjaramál starfsmanna starfsmannaleignanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×