Innlent

Gísli Marteinn með forskot en þriðjungur óákveðinn

Gísli Marteinn Baldursson nýtur meira fylgis en Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson í baráttunni um fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins vegna komandi borgarstjórnarkosninga samkvæmt niðurstöðum könnunar sem 365 Nýmiðlun gerði á fylgi frambjóðenda. Athygli vekur að rúmlega þriðjungur segist enn óákveðinn. Könnunin sem var póstlistakönnun, var gerð fyrir stuðningsmenn Gísla Marteins og bárust rúmlega 4.500 svör.

35% nefndu Gísla Martein Baldursson, 31% nefndi Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og 34% sögðust óákveðin.

Af þeim sem afstöðu tóku sögðust 52,6% kjósa Gísla Martein en 47,4% Vilhjálm Þ.

Könnun 365 Nýmiðlunar var gerð í gær, fimmtudag og var spurt; Hvorn eftirtalinna vilt þú frekar sjá sem borgarstjóra í Reykjavík?

Úrtakið var Reykvíkingar á aldrinum 16-75 ára og bárust 4.572 svör.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×