Innlent

Óttast fjöldauppsagnir í rækjuiðnaði

Ef ekkert verður að gert er hætt við að aðeins tvær til fjórar rækjuverksmiðjur verði enn starfandi eftir næstu áramót sagði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingar, á Alþingi í dag. Rækjuverksmiðjur voru tuttugu og tvær þegar þær voru flestar.

Stjórnarandstæðingar gagnrýndu Seðlabanka Íslands harkalega á Alþingi í dag fyrir vaxta- og gengisstefnu, sem þeir sögðu stefna heilli atvinnugrein í voða. Utandagskráumræður fóru fram um töðu rækjuiðnaðarins í dag. Stjórnarandstæðingar gagnrýndu Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra jafnframt fyrir aðgerðaleysi. Kristján Möller hóf umræðuna og sagði rækjuiðnaðinn að hruni kominn. Hann sagði ástæðurnar þríþættar. Ein væri algjört hrun í veiðum, önnur væri erlendir ríkisstyrkir en sú þriðja væri heimatilbúin, það væri mikill vandi sem fylgdi háum vöxtum og sterku gengi krónunnar.

Kristján og fleiri þingmenn spurðu ráðherra hvers vegna hann hefði ekki úthlutað kvótaheimildum vegna aflabrests líkt og honum væri heimilt samkvæmt lögum. Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra sagði að ekki hefði komið til umræðu að veita útgerðum kvóta í öðrum fisktegundum. Hann sagði engar einfaldar lausnir við vandanum í rækjuveiðum og iðnaði. Hann sagðist vilja athuga hvort bregðast mætti við með almennum hætti og kvaðst hafa skipað nefnd til að fara yfir stöðuna.

Stjórnarandstæðingar gáfu lítið fyrir þetta svar. Jón Gunnarsson, þingmaður Samfylkingar úr Suðurkjördæmi, sagði svar ráðherrans ekki boðlegt og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði að það skyldi þó aldrei verða niðurstaðan að rækjuiðnaðurinn myndi deyja í nefnd sem sjávarútvegsráðherra skipaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×