Innlent

Nefnd um flugvöll skilar áliti næsta sumar

Nefnd sem meta á framtíð Reykjavíkurflugvallar, hefur brett upp ermar og áformar að skila áliti sínu næsta sumar.

Samgönguráðherra og borgarstjóri komust að samkomulagi fyrir fjórum mánuðum um að gerð yrði úttekt á flugvellinum í Reykjavík sem yrði grundvöllur sameiginlegrar ákvörðunar um framtíð hans. Skipuð var nefnd um málið sem Helgi Hallgrímsson, fyrrverandi vegamálastjóri , fer fyrir. Aðrir í nefndinni eru Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri, Sigurður Snævarr, borgarhagfræðingur, og Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrú.

Helgi segir þrjá kosti verða borna saman. Í fyrsta lagi flugvöll með einni flugbraut, í öðru lagi flugvöll með tveimur brautum og í þriðja lagi þann kost að flugstarfsemin hverfi alfarið af svæðinu. Þá mun nefndin meta meðal annars lágmarksstærð flugbrauta og athafnasvæðis sem þörf er talin á, eigi flugvöllurinn að þjóna núverandi hlutverki sínu sem miðstöð innanlandsflugsins.

Óhætt er að segja að menn séu ekki á einu máli þegar kemur að málum flugvallarins en sífellt fleiri eru þó á þeirri skoðun að hann eigi að fara. En hvert? Löngusker eru sá möguleiki sem oftast hefur verið nefndur sem og Miðdalsheiði, en fleiri möguleikar hafa verið nefndir til sögunnar svo sem Álfsnes, Geldinganes og Engey. Helgi vildi ekkert segja til um hver hann telji að niðurstaða nefndarinnar verði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×