Innlent

Athugun á flutningi olíubirgðastöðvar hefur dregist

Samþykkt var í borgarstjórn fyrir um ári að starfshópur færi í að athuga með flutning olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey. Sú vinna hefur dregist um marga mánuði en hópurinn fer á fund með forsvarsmönnum olíufélaganna í lok vikunnar.

Starfshópur hjá Reykjavíkurborg átti að skila greinargerð síðasta vor um það hvernig hægt verði að flytja olíubirgðastöðina eða hluta hennar úr Örfirisey. En það er ekki fyrr en nú í kjölfar olíubrunans í Bretlandi sem starfshópurinn er að hefja störf.

Á föstudag á starfshópurinn sinn fyrsta fund með forsvarsmönnum olíufélaganna um hugsanlega flutninga sem er löngu tímabært að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sem flutti tillögu um málið í byrjun nóvember í fyrra. Eins og fram hefur komið í fréttum er olíubirgðastöðin í Bretlandi, sem nú stendur í ljósum lögum, af svipaðri stærð og sú sem er í Örfirisey.

Guðlaugur Þór segir þetta frekar staðfestingu á því sem vitað hafi verið, að það sé ekki heppilegt að hafa stöðina og það séu margar ástæður fyrir því. Ein ástæðan sé sú að hún sé nærri miðborgarsvæðinu. Guðlaugur segir enn fremur að það hafi verið tækifæri vegna breytinga hjá varnarliðinu að fara yfir þau mál með þeim aðilum varðandi þeirra aðstöðu sem þeir hafa notað, hvort sem um er að ræða Helguvík eða Hvalfjörð. Þannig hafi allt mælt með því að vinna hratt og örugglega í þessu máli og vonandi muni það gerast núna.

Froðubirgðir á Íslandi eru ekki nægar til þess að slökkva eld eins og þann sem nú logar í bresku olíubirgðastöðinni. Aðspurður hvort hann telji það hlutverk borgaryfirvalda að sjá til þess að nægar froðubirgðir séu til á meðan stöðin er í Örfirisey segir Guðlaugur að það hljóti að vera hlutverk borgaryfirvalda að sjá til þess að öryggi borgaranna sé tryggt og það skipti engu máli hvort um er að ræða froðu í tengslum við þetta eða eitthvað annað. Menn hljóti að taka það hlutverk sitt mjög alvarlega og fara yfir það í tengslum við þennan atburð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×