Björgunarbáturinn Oddur V. Gíslason var sendur af stað frá Grindavík eftir að tilkynning barst Landhelgisgæslunni um olíulausan bát á reki suðvestur af Reykjanesi. Að sögn Guðjóns Sigurðssonar, skipstjóra á björgunarbátnum, mátti vart tæpara standa því veður versnaði mjög.
„Ef við hefðum verið seinna á ferðinni hefðu þeir jafnvel þurft að halda sjó," segir Guðjón.
Vont veður og mikill öldugangur var á svæðinu og hafði verið þá fimm tíma sem liðu frá því að vélin drap á sér og björgunin barst, að sögn Sævars Baldvinssonar annars áhafnarmeðlims Gísla KÓ 10. Að sögn Sævars drapst á bátsvélinni um tvöleytið um nóttina.
Í áhöfn bátsins auk Sævars, sem er 21 árs, var Hjörtur Guðmundsson 19 ára, en faðir þess síðarnefnda gerir bátinn út frá Kópavogi.
Að sögn mannanna töldu þeir sig aldrei í hættu, þó að þeim hafi þeim þótt óþægileg tilfinning að reka stjórnlaust á bátnum. „Sævar lagði sig og ég beið eftir björgunarbátnum," segir Hjörtur, annar bátsmannanna. „Svo lagði ég mig á meðan við vorum dregnir í land, það var svo sem ekki neitt annað að gera."
Þetta var fyrsti róður þeirra Sævars og Hjartar saman, en áður hafði Hjörtur róið einn á bátnum. Báturinn tekur sjö tonn af afla en hafði fiskað fjögur tonn af ufsa og þorski þegar bilunin kom upp.