Viðskipti innlent

Byssur FL Group fullhlaðnar

Hannes Smárason
Hannes Smárason

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, telur að með því að nýta alla þá kosti sem FL standi til boða geti félagið ráðist í ný verkefni fyrir 120 milljarða króna, jafnvel allt að 150 milljarða. Fjárhagslegur styrkur félagsins hefur aldrei verið meiri eftir sölu á hlut þess í Icelandair Group á dögunum.

Hagnaður FL nam tæpum ellefu milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og jókst um 67 prósent á milli ára. Á þriðja ársfjórðungi hagnaðist félagið um 5.257 milljónir sem er þrettán prósenta aukning frá sama tíma í fyrra. Hins vegar dróst hagnaður félagsins fyrir skatt saman um tólf prósent milli ára.

Uppgjör ársfjórðungsins var heldur undir meðaltalsspá markaðsaðila sem hljóðaði upp á sex milljarða króna.

Hreinar fjárfestingatekjur voru 565 milljónir króna og dró styrking krónunnar úr hagnaði af fjárfestingum.

Frá lokum september hefur efnahagur FL tekið gjörbreytingum í kjölfar sölu á Icelandair. Þegar horft er til fyrstu tíu mánaða ársins nam hagnaður fyrir skatta 36 milljörðum króna samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri og óx eigið fé úr 112 milljörðum í lok september í 131 milljarð mánuði síðar. Eiginfjárhlutfall félagsins var yfir 53 prósent í lok október.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×