Rafael Correa, 43 ára vinstrisinnaður hagfræðingur, sigraði með glæsibrag í forsetakosningunum í Ekvador á sunnudaginn. Þegar helmingur atkvæða hafði verið talinn í gær hafði Correa fengið tvisvar sinnum fleiri atkvæði en andstæðingur hans, auðjöfurinn Alvaro Noboa.
Ekvador bætist því í hóp þeirra Suður-Ameríkuríkja þar sem vinstrimaður er við völd. Fyrir eru vinstrimenn við stjórnartauminn í Bólivíu, Brasilíu, Argentínu, Chile og Venesúela.
Þeim Correa og Hugo Chavez, forseta Venesúela, er vel til vina, en Chavez hefur verið einn hvassyrtasti andstæðingur Bandaríkjanna.
Correa hóf kosningabaráttu sína með því að líkja sér við Chavez, en hætti því þegar hann sá að það kæmi ekki vel út í skoðanakönnunum. Nú eru þær afstaðnar og Correa segist vonast til þess að geta gert svipaða hluti og Chavez.
Correa hefur lofað því að bæta mjög stöðu fátækra í Ekvador, landi þar sem fátækt er mikil. Hann vill einnig breyta stjórnarskrá landsins til þess að draga úr valdi gömlu flokkanna og takmarka starfsemi Bandaríkjanna í Ekvador.
Andstæðingur Correas í forsetakjörinu, Noboa, vildi þó ekki viðurkenna ósigur sinn í gær og sakaði Correa um kosningasvindl.