Viðskipti innlent

Minni vöxtur í jólaverslun í ár

Gert er ráð fyrir minni vexti í smásöluverslun um jólin en í fyrra og árið á undan. Rannsóknasetur verslunarinnar við háskólann á Bifröst segir um metár að ræða bæði árin á undan en líkur séu á að metið verði ekki slegið nú um jólin. Vöxturinn er sambærilegur og í Svíþjóð.

Emil B. Karlsson, forstöðumaður Rannsókna-seturs verslunarinnar, segist búast við að jólaverslunin í ár muni vaxa um 9 prósent á föstu verðlagi á milli ára. Þetta jafngildir 8 milljarða króna veltu umfram meðaltal ársins eða 26.600 krónum á hvert mannsbarn.

Á sama tíma í fyrra var vöxtur í jólaverslun 10 prósent á milli ára en 11 prósent árið á undan. Til samanburðar var vöxtur jólaverslunar í nóvember og desember um 5 prósent að meðaltali á árabilinu 2000 til 2005.

Emil segir að dregið hafi úr einkaneyslu, innflutningur minnki og vextir hækki. Þá sé ekki jafn mikið um nýbyggingar nú og fyrri ár en það hafi í för með sér að fólk kaupir ekki jafn mikið af stórum hlutum á borð við stór heimilistæki. „Mér skilst reyndar að vegna þessa sé meiri velta í smærri hlutum í staðinn,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×