Viðskipti innlent

Ekki minni halli í tólf mánuði

Halli á vöruskiptum við útlönd hefur ekki mælst minni en nú síðastliðna tólf mánuði. Sjö milljarða halli var á vöruskiptum í október miðað við 6,4 milljarða í október 2005 á föstu gengi. Nýjar tölur sem Hagstofan birti í gær sýna að í október voru fluttar út vörur fyrir 20 milljarða króna og inn fyrir 27 milljarða.

Fyrstu tíu mánuði ársins voru fluttar út vörur fyrir 193,2 milljarða króna en inn fyrir 302,4 milljarða. Nemur því hallinn 109,1 milljarði en á sama tíma árið áður voru vöruskiptin óhagstæð um 81,8 milljarða á sama gengi.

Verðmæti vöruútflutnings fyrstu tíu mánuði ársins var 12,5 milljörðum eða 6,9 prósentum meira en á sama tíma árið áður. Í Morgunkorni Glitnis segir að álútflutningur hafi aukist um rúm fjörutíu prósent frá sama tíma í fyrra á föstu gengi. Útflutt magn áls hafi þó aðeins aukist um rúm fimm prósent svo hækkunin kemur fyrst og fremst til af háu heimsmarkaðsverð á áli.

Verðmæti vöruinnflutnings fyrstu tíu mánuði ársins var 39,8 milljörðum eða 15,2 prósentum meira en árið áður. Rúman helming af þeirri aukningu, eða 20,8 milljarða, má rekja til aukins innflutnings á fjárfestingarvöru sem náði hámarki í sumar og hefur aukist um 35,1 prósent á tímabilinu. Úr þeim innflutningi hefur hins vegar dregið verulega undanfarna mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×