Viðskipti innlent

Krónan kom mikið við sögu

Grandi hagnaðist um 1,5 milljarða króna á 3. ársfjórðungi. Á fyrstu níu mánuðum ársins tapaði félagið einum milljarði.
Grandi hagnaðist um 1,5 milljarða króna á 3. ársfjórðungi. Á fyrstu níu mánuðum ársins tapaði félagið einum milljarði.

Hagnaður HB Granda var rúmur 1,5 milljarðar króna á þriðja ársfjórðungi og jókst um 160 prósent frá sama tímabili í fyrra. Uppgjörið er gott að mati Greiningar Glitnis.

Þrátt fyrir bættan rekstur félagsins og auknar tekjur á árinu, sem markast af hærra afurðaverði og lægra gengi krónunnar, veldur gengisfall krónunnar miklum fjármagnskostnaði og því er félagið gert upp með eins milljarðs tapi á fyrstu níu mánuðum ársins.

Tekjur félagsins á þriðja fjórðungi voru um 3,2 milljarðar króna og jukust um 28 prósent. Framlegð sem hlutfall af tekjum var 17,5 prósent eða 5,5 prósentustigum meira en árið áður.

Tekjur á fyrstu níu mánuðunum voru tæpir 10,9 milljarðar króna og jukust um 26,7 prósent á milli ára. Glitnir bendir á að tekjur þessa árs eru nú þegar orðnar meiri en allt árið í fyrra.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 2,2 milljarðar á tímabilinu eða 20,3 prósent af rekstrartekjum samanborið við 1,5 milljarð, eða 17,6 prósent af tekjum, á fyrstu níu mánuðunum 2005.

Eignir HB Granda voru 29,8 milljarðar króna í lok september og eigið fé 9,1 milljarður. Eiginfjárhlutfall félagsins stóð í 30,7 prósentum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×