Fötlun „Á hverjum degi verða fleiri Palestínumenn fatlaðir vegna árása og aðgerða Ísraelshers,“ segir Ziad Amro, fatlaður palestínskur félagsráðgjafi, sem staddur er hér á landi á vegum félagsins Ísland-Palestína, Blindrafélagsins og Öryrkjabandalags Íslands.
Yfir kaffibolla og rammíslenskri berjasaft í notalegu einbýlishúsi í Breiðholtinu virðast hörmungarnar í Palestínu langt undan, en fyrir Amro eru þær hluti af daglegri reynslu.
„Ástandið er afar erfitt fyrir alla, en ekki síst fyrir fatlaða. Gaza-svæðið er í raun bara eitt stórt fangelsi Ísraels,“ segir Amro, sem sjálfur missti sjónina vegna aðgerða Ísraelshers í háskólanum þar sem hann stundaði nám fyrir nokkrum árum. „Efnahagur fólks er bágborinn, það er enga vinnu að fá og enginn lífeyrir frá ríkinu.“
Amro, sem hefur lengi verið virkur í mannréttindabaráttu fatlaðra á herteknu svæðunum heima fyrir, starfar sem formaður Öryrkjabandalags Palestínu en hann er jafnframt stofnandi bandalagsins. Eins var hann fulltrúi Palestínu í nefnd Sameinuðu þjóðanna um sáttmála um réttindi og reisn fatlaðra sem samþykktur var í september.
„Við lifum við aðgerðir Ísraelsmanna. Nú stendur yfir aðgerðin „Haustský“ á Gaza-svæðinu sem hefur á seinustu tveimur til þremur vikunum ollið varanlegri fötlun yfir fimmtíu palestínskra manna, kvenna og barna,“ segir Amro.
Og í hernumdu landi er fátt eitt til ráða og lítið um úrræði fyrir fatlaða, sem oft eiga afar erfitt með að sjá sér og sínum farborða.
„Það verður að stöðva Ísrael. Þetta er eina landið í heiminum sem brýtur á hverjum degi alþjóðalög, og við verðum að kalla eftir að þau ríki sem hafa neitunarvald í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, Rússland, Bandaríkin, Bretland, Frakkland og Kína, sem og gyðingar um heim allan, fari að beita sér í þágu palestínsku þjóðarinnar,“ sagði Amro.
En þrátt fyrir að hann hafi misst sjónina vegna aðgerða Ísraelshers, segir hann að ekki sé við Ísraelsmenn að sakast.
„Ég ásaka ekki ísraelska fólkið, ég kenni ísraelsku ríkisstjórninni um ástandið heima hjá mér,“ segir Amro, sem býr í Ramallah á Vesturbakkanum. „Auðvitað verður að draga þá fyrir dóm sem bjóða sig fram í sjálfboðavinnu innan hersins til að brjóta alþjóðalög, en í heildina er eingöngu við Ísraelsstjórn og þau ríki og sérfræðingaráð sem sýna henni stuðning að sakast.“
Amro heldur fyrirlestur síðdegis í dag á vegum Blindrafélagsins og Öryrkjabandalags Íslands í Hamrahlíð 17 klukkan 17.30.