Innlent

Sterling selt til Easy Jet?

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir koma til greina að selja breska lággjaldaflugfélaginu Easy Jet danska flugfélagið Sterling.
Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir koma til greina að selja breska lággjaldaflugfélaginu Easy Jet danska flugfélagið Sterling. MYND/Gunnar V. Andrésson

Frekari hræringa að vænta hjá FL Group. Danska blaðið Børsen fjallar í dag um kaup FL Group á Sterling sem gengið var endanlega frá í gær. Blaðið ræðir meðal annars við Hannes Smárason, forstjóra FL Group.

Børsen segir Hannes Smárason nú í fyrsta skipta greina frá hugsanlegum áætlunum um framtíð Sterling, en hann segir meðal annars að til greina komi að selja félagið til EasyJet eða stofna til náins samstarfs milli félaganna tveggja. Hannes segir skandinavíska markaðinn góðan kost fyrir lággjaldaflugfélög og sameinuð myndu Sterling og Easyjet verða stærri en Ryanair og þar með stærsta lággjaldafélag Evrópu.

Í umfjölluninni er einnig minnst á aukinn hlut FL Group í Finnair. Hannes Smárason segist ekki líta á Finnair sem samkeppnisaðila lággjaldafélaganna heldur meira sem félag svipað Icelandair, sem þjónar ákveðnum markaði. Hann telur einnig Icelandair og Finnair eiga ágætlega saman því Finnair þjóni Asíu vel en Icelandair sé sterkara á flugleiðum til Bandaríkjanna. Að sögn Hannesar hefur FL Group jafnframt áhuga á því að skoða Finnair nánar ef til þess kemur að finnska ríkið hyggist losa um meirihluta eignarhald sitt á félaginu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×