Leikur Dallas Mavericks og Charlotte Bobcats verður sýndur í beinni útsendingu á NBA TV klukkan 01:30 í nótt. Fyrirfram mætti reikna með stórsigri Dallas, því Charlotte hefur aðeins unnið 6 útileiki í allan vetur en Dallas hefur aðeins tapað 4 leikjum á heimavelli.
Dallas-liðið var hinsvegar að spila mjög erfiðan útileik við San Antonio í gærkvöldi þar sem liðið tapaði naumlega, en Charlotte hefur fengið ágæta hvíld síðan það vann mjög öruggan útisigur á Utah. Stutt er síðan lið Charlotte var í beinni útsendingu á NBA TV þar sem liðið spilaði við Phoenix og var sá leikur einhver allra skemmtilegasti leikur sem sýndur hefur verið í vetur. Það er því óhætt að búast við góðri skemmtun í kvöld þar sem Dirk Nowitzki og félagar í Dallas taka á móti einu af botnliðunum í deildinni.