Innlent

Lítið upp í skaðann af virkjun

Árni segir álitamál hvort það hafi verið rétt af umhverfisráðherra að taka við styrknum frá Alcoa.
Árni segir álitamál hvort það hafi verið rétt af umhverfisráðherra að taka við styrknum frá Alcoa. MYND/Vilhelm

Tuttugu milljóna króna styrkur Alcoa vegna þjóðgarða vegur lítið til móts við þann skaða sem verður af Kárahnjúkavirkjun segir formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. Hann telur styrkinn frekar til marks um sýndarmennsku en að fyrirtækið standi sig vel í umhverfismálum.

Sigríður Anna Þórðardóttir umhverfisráðherra tók í gær við 20 milljóna króna styrk úr hendi Bernt Reitans varaframkvæmdastjóra Alcoa. Styrkurinn er ætlaður til uppbyggingar þjóðgarða í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum.

"Það gefur auga leið að Alcoa þarf og vill bæta ímynd sína í umhverfismálum á Íslandi," segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands. "En á sama tíma er vert að hafa í huga að þessar 20 milljónir eru eins og þriggja herbergja íbúð í Reykjavík. Þetta er ekki mikil fjárhæð miðað við þann skaða sem Kárahnjúkavirkjun veldur."

Árni telur að peningurinn geti komið að góðum notum enda stofnanir sem vinna að umhverfismálum fjársveltar. Hann telur þetta þó ekki til marks um góða stöðu Alcoa í umhverfismálum.

"Alcoa vill bæta sína ímynd. Þeir gera það með þessum hætti," segir Árni. "Ég held að almenningur átti sig á að þetta er liður í því en ekki endilega að Alcoa sé gott í umhverfismálum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×