Innlent

Sátt felur ekki í sér afsögn Guðna

MYND/GVA

Sátt sem formaður og varaformaður Framsóknarflokksins gerðu í gærkvöld felur ekki í sér að Guðni Ágústsson segi af sér æðstu embættum í flokknum. Flokksþing verður í þriðju viku ágústmánaðar.

Guðni Ágústsson, sagði í samtali við NFS í morgun að þeir Halldór Ásgrímsson, formaður flokksins, hefðu náð fullum sáttum á fundinum í gærkvöldi, handtakið sem sjá má á forsíðu Morgunblaðsins hafi verið traust. Deilurnar séu að baki og nú einhendi sér flokkurinn í nafni einingar og samstöðu í það verkefni að afgreiða ráðherraskiptin í ríkisstjórninni. Samkomulag hans og Halldórs feli ekki í sér afsögn hvorki varaformanns né annarra í forystu flokksins. Halldór gegni sjálfur formennsku þar til flokksþing verði haldið í þriðju viku ágústmánuðar.

Halldór hefur lýst því yfir að hann hyggist hætta í pólitík í haust. Geir H. Haarde verður næsti forsætisráðherra, en Guðni segir að stólaskipti séu að öðru leyti ófrágengin. Fréttastofan hefur fyrir því heimildir að í röðum almennra sjálfstæðismanna sé vaxandi áhugi og þrýstingur á flokksforystuna að slíta stjórnarsamstarfinu og efna til alþingiskosninga en innan þingflokksins vilji menn láta reyna á áframhaldandi stjórnarsamstarf með framsóknarmönnum út kjörtímabilið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×