Gengi hlutabréfa lækkaði mikið í kauphöllinni í Tókýó í Japan í dag en Nikkei-225 hlutabréfavísitalan lækkaði um 4,14 prósent við lokun markaða. Vísitalan hefur ekki lækkað jafn mikið á einum degi í tvö ár.
Lækkanir á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum og ótti fjárfesta við að Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hækki stýrivexti eru helstu ástæður lækkana á hlutabréfamörkuðum í Bandaríkjunum og Japan. Mestur hluti útflutnings Japana fer á markað í Bandaríkjunum og hægi á innflutningi til landsins hefur það bein áhrif í Japan.
Stýrivextir í Bandaríkjunum eru 5 prósent og telja sérfræðingar að frekari hækkanir geti hægt á efnahagslífinu vestra.
Fjárfestar losuðu sig því við hlutabréf á mörkuðum bæði í Bandaríkjunum í gær og í Japan í dag til að verja sig bæði fyrir hægingu í efnahagslífinu og lækkun bréfanna í kjölfar hækkunar á stýrivöxtum.
Verðbólgutölur í Bandaríkjunum eru væntanlegar á morgun.