Heimsmeistarinn Fernando Alonso í Formúlu 1 hefur ekki áhyggjur þó Michael Schumacher og Ferrari hafi unnið tvær síðustu keppnir og eigi þá næstu á heimavelli hans, Hockenheim-brautinni í Þýskalandi.
"Ég er mjög bjartsýnn og held að við getum vel lokið keppnistímabilinu á sama hátt og við hófum það," sagði Alonso, en hann var gjörsamlega ósigrandi í fyrstu keppnum ársins. "Ég stefni alltaf á að vinna Michael Schumacher, ekki bara á Hockenheim. Við vitum hinsvegar að það yrði sálfræðilega mjög sterkt að ná að hafa betur í Þýskalandi, því þau tíu stig yrðu meira virði en útlit er fyrir á pappírunum," sagði Alonso, sem enn hefur 17 stiga forystu í keppni ökuþóra.