Innlent

Annatími fram undan vegna vals á framboðslista

Það verður einnig annatími hjá stjórnmálaflokkunum næstu vikurnar og mánuðina þar sem víða verða teknar ákvarðanir um hvernig valið skuli á framboðslista fyrir alþingiskosningar næsta vor. Frjálslyndir virðast lengst á veg komnir í undirbúningi.

Kosningavetur fer senn í hönd og því má búast við átökum bæði milli flokka og innan þeirra í aðdraganda kosninganna. Allir eru flokkarnir farnir að huga að framboðsmálum og eins fram hefur komið efnir Samfylkingin til prófkjörs fyrir Reykjavíkurkjördæmin þann 11. nóvember.

Frjálslyndi flokkurinn er nokkuð á veg kominn í sínum undirbúningi en innan hans fer nú fram svokölluð forkönnun þar sem bréf hefur verið sent til allra félagsmanna og þeir beðnir um benda á fulltrúa í sínu kjördæmi sem komi til greina á framboðslista fyrir kosningarnar. Félagsmenn hafa frest til 10. september til að skila inn tilnefningu og í framhaldinu verður stillt upp á lista.

Hjá Sjálfstæðisflokknum verður fyrirkomulag framboðsmála einnig ákveðið hjá kjördæmaráðum en aðalfundir þeirra verða í lok september og í október. Svipaða sögu er að segja af Framsóknarflokknum en þar verður það í höndum kjördæmissambanda að ákveða hvernig valið skuli á framboðslista. Samböndin halda kjördæmisþing í október eða nóvember næstkomandi.

Hjá vinstri - grænum er unnið að hugmyndum um forval og er sú vinna lengst komin á suðvesturhorninu. Þar er enn verið að skoða hugmyndir um sameiginlegt forval í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og Suðvesturkjördæmi að sögn Drífu Snædal, framkvæmdastýru flokksins, en tillögur um forval verða kynntar á félagsfundi 12. september í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×