Innlent

Vandar föðurlega um fyrir Guðlaugi

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vandar föðurlega um fyrir Guðlaugi Þór Þórðarsyni alþingismanni, sem að öllum líkindum býður sig fram í annað sæti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, á móti Birni.

Eftir að Ríkissjónvarpið greindi frá því í gær að Guðlaugur Þór, sem nú skipar sjötta sætið, stefndi að öllum líkindum á annað sætið fyrir næstu Alþingiskosningar segir Björn á heimasíðu sinni að það sé engin nýlunda að fleiri sækist eftir sama sæti og hann í prófkjöri. Hins vegar hafi hann sjálfur ekki boðið sig fram gegn neinum samflokksmanna sinna enda telji hann samstöðu innan flokka best fallna til sigurs.

Björn, sem verið hefur í þriðja sæti, sækist eftir öðru sætinu þar sem Davíð Oddsson er ekki lengur í fyrsta sæti og Geir H. Haarde hefur flust upp úr öðru sæti í það fyrsta. Ríkissjónvarpið lét að því liggja í frétt sinni um framboð Guðlaugs Þórs að hann væri hallur undir Geir Haarde forsætisráðherra og að einhver núningur væri á milli Geirs og og Björns Bjarnasonar en Björn telur þær hugleiðingar ekki á rökum reistar.

Guðlaugur Þór vildi það eitt segja við NFS í morgun að hann myndi gefa yfirlýsingu um framboð sitt síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×