Innlent

Þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur MYND/Vísir

Karlmaður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa í sumar nauðgað tvítugri stúlku á göngustíg í Breiðholti.

Maðurinn, Sigurður Rafn Ágústsson, réðst á konuna sem er liðlega tvítug á göngustíg milli Arnarbakka og Suðurfells í Reykjavík. Konan var á leið til vinnu sinnar á fjórða tímanum aðfaranótt fimmtudagsins 10. ágúst þegar maðurinn réðst á hana og nauðgaði henni. Hann var vopnaður hnífi og vafði sjali um höfuð stúlkunnar á meðan á nauðguninni stóð. Dómurinn lýsir nauðguninni sem hrottafenginni en maðurinn notaði bæði hníf og logandi kveikjara til að ganga í skrokk á stúlkunni.

Maðurinn rændi einnig af konunni peningum sem hún hafði meðferðis og síma hennar.

Göngustígurinn sem nauðgunin átti sér stað á er rétt fyrir neðan bensínstöð Selcet í Breiðholti og skoðaði lögreglan upptökur úr öryggismyndavél bensínstöðvarinnar. Þar sást maðurinn taka bensín og var hægt að hafa uppi á honum en hann játaði verknaðinn við yfirheyrslur hjá lögreglunni. Maðurinn hlaut þriggja ára skilorðsbundinn dóm fyrir þjófnað á síðasta ári en með árásinni rauf hann skilorðið.

Maðurinn var dæmdur til þriggja og hálfs árs fangelsisvistar en þarf jafnframt að greiða konunni 2.000.000 kr. í miskabætur og 560.000 kr. í sakarkostnað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×