Evrópusambandið hefur gefið Tyrkjum frest fram í miðjan desember til þess að opna hafnir sínar fyrir skipum frá Kýpur, eða taka þeim afleiðingum sem áframhaldandi hafnbann hefði á aðildarumsókn landsins.
Evrópusambandið segir að Tyrkir verði einnig að bæta tjáningarfrelsi, verja réttindi kvenna og minnihlutahópa og draga úr völdum hersins.
Bæði forsætisráðherra og utanríkisráðherra Tyrklands sögðu í dag að Tyrkir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til þess að verða við kröfum sambandsins.
Kýpur sé hinsvegar pólitískt mál, sem eigi að halda utan við aðildarviðræðurnar, og leysa á öðrum vettvangi.
Forsætisráðherrann sagði einnig að það myndi ekki valda Tyrkjum neinni geðshræringu þótt leiðtogar Evrópusambandsins tækju ákvörðun um að hægja á aðildarviðræðunum, á fundinum sem haldinn verður í Brussel, í desember.