Formúlumógúlnum Bernie Ecclestone er ekkert heilagt þegar kemur að því að auka veg og virðingu íþróttarinnar og nú hefur hann valdið mótshöldurum breska kappakstursins á Silverstone hugarangri með framtíðaráformum sínum.
Ecclestone hefur farið þess á leit við rekstraraðila Silverstone að brautin í Norðhamptonskíri verði endurbætt og löguð til að standast gæðakröfur, en enskir segja það muni kosta hundruði milljóna punda. Silverstone er elsta brautin sem keppt er á í Formúlu 1 en fyrst var keppt á henni fyrir 56 árum síðan.
Núverandi samningur Silverstone rennur út árið 2009, en Ecclestone hefur boðið Englendingunum að halda keppnina annaðhvert ár á móti Frökkum og hefur það vakið litla hrifningu enskra. Þá er Ecclestone með áform á prjónunum um að keppa jafnvel á Indlandi árið 2010 og segir að þar sé þegar búið að finna brautarstæði.