Viðskipti innlent

Afkoma Alfesca yfir væntingum

Matvælafyrirtækið Alfesca skilaði 1,8 milljóna evra tapi á síðasta fjárhagsári, sem hófst í júlí í fyrra en lauk í enda júní. Þetta svarar til 161,6 milljóna íslenskra króna samanborið við 3,3 milljónir evra eða 296 milljóna króna tap í fyrra.

Afkoman er nokkuð yfir væntingum greiningardeilda sem spáðu að tapið myndi nema rúmum 215 milljónum króna eða 2,4 milljónum evra.

Í ársuppgjöri Alfesca kemur fram að á fyrsta ársfjórðungi hafi sala numið 112 milljónum evra eða rúmum 10 milljörðum króna, sem er 6,7 prósenta aukning á milli ára. Salan jókst á öllum helstu markaðssvæðum í Frakklandi, Bretlandi og á Spáni.

Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta (EBITDA) á fjórðungnum nam 3,5 milljónum evra eða rúmum 314 milljónum króna sem er 16 prósenta aukning á milli ára.

Xavier Govare, forstjóri Alfesca, segir rekstrarafkomuna á fyrsta fjórðungi nýs fjárhagsárs nokkuð betri en áætlanir gerðu ráð fyrir þrátt fyrir að hráefnisverð á laxi hafi verið í sögulegu hámarki. „Framundan er mikilvægasti fjórðungur félagsins þar sem milli 60-70% af framlegð félagsins myndast. Hráefnisverð á laxi hefur lækkað hratt að undanförnu sem eru jákvæðar fréttir fyrir Alfesca. Sala það sem af er öðrum ársfjórðungi hefur verið í samræmi við áætlanir og útlitið fyrir desember og fjórðunginn í heild verður því að teljast gott," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×