Ian Wright, fyrrum leikmaður Arsenal, segir félagið hafa brugðist Thierry Henry eftir að hann skrifaði undir nýjan samning við félagið. Henry hefur ekki leikið með Arsenal í undanförnum leikjum og hefur fjarvera hans verið skrifuð á meiðsli, en heyrst hefur að fjarvera hans sé vegna ósættis hans við Arsene Wenger og forráðamenn félagsins.
"Arsenal hefur brugðist Henry því félagið hefur ekki staðið við þær skuldbindingar sem það veifaði framan í hann þegar hann framlengdi samning sinn á sínum tíma. Það var altalað að Arsenal ætlaði að styrkja leikmannahópinn verulega, en ekkert slíkt hefur gerst. Það getur vel verið að Wenger sé seigur að finna lítt þekkta leikmenn sem vaxa og dafna hjá honum, en liðið þarf að kaupa heimsklassa leikmenn inn í liðið með Henry. Maður sér það greinilega á Henry að hann er svekktur og ég hef mikla samúð með honum," sagði Wright í samtali við breska blaðið The Sun.